Friday, August 31, 2007

Markmið

Ástæða þess að ég er að byrja á þessari æfingasíðu til þess að fylgjast með og skrá æfingar mínar er að ég hef sett mér það markmið að ljúka Ironman keppni í síðasta lagi sumarið 2010. Á leið minni þangað ætla ég að keppa í þríþrautum og maraþon hlaupum.
Ég á eftir að setja upp heilstætt plan fyrir næstu 2 árin en hinsvegar eru komnar tvær keppnir sem ég ætla að taka þátt í árið 2008.

Í fyrsta lagi er það Mývatnsmaraþonið snemma sumars... Verður það fyrsta heila maraþonið mitt og stefni ég á að klára það á undir 4 tímum.

Næst er það London Þríþrautin, fyrstu helgina í ágúst. Ég mun keppa í ólympískri vegalengt... 1500m sundi, 40km hjólreiðar, 10km hlaup. Markmið að klára þetta á 2:30klst.

Svo er það Reykjavíkur maraþonið um miðjan ágúst. Þar stefni ég á þáttöku í hálfmaraþoni og bæta tímann minn frá því í ár (1:52:17). Um minnst 22:17 mínútur og komast niður fyrir eina og hálfa klukkustund.

Fleiri markmið munu eflaust bætast við, en það kemur bara smá saman.

Nú er bara að taka á því og bæta sig á öllum sviðum, því eins og ástandið er núna eru þessi markmið ómöguleg... en þeir sem ná langt sjá ekki aðstæður í nútímanum, þeir sjá það sem getur orðið og það sem mun verða. Þetta mun verða!

Hlaup-hjól

Fyrsta æfingin var í dag. Á dagskránni var langt hlaup og stutt hjól. Ég ákvað því að hlaupa frá Skarphéðinsgötunni þegar ég vaknaði, upp í árbæ og hjóla þaðan til baka.
Það byrjaði nú ekki vel þar sem ég ýtti á snooze takkan 3svar áður en ég kom mér á lappir og þá reyndi ég eins og ég gat að finna afsökun fyrir því að fara ekki af stað... tímaskortur, rigning, stirðleiki... þetta klassíska... kom mér þó í skóna og lagði af stað. Að venju voru fyrrstu 15 mínúturnar erfiðastar, hausinn að segja manni að snúa við, líkaminn að komast í takt. Þegar ég var kominn í Nauthólsvíkina var ég þau kominn á góðan takt og gekk vel eftir það. Leiðin er um það bil 14km og hljóp ég á 1:04:20 sem er bara mjög fínt.

Eftir að taka hjóla til og pumpa í dekkin fékk ég bjúgu elduð af mömmu, æðislegt að fá smá orku og lagði svo af stað á hjólinu. Það var hætt að rigna og nánast algjört logn. Fullkomnar aðstæður til þess að hjóla. Gekk bara mjög vel nema hvað að ég var hættur að geta gefið almennilega í í lokinn, lærinn orðin frekar stíf. Tíminn var 25 mínútur sem er eitthvað sem ég vill bæta aðeins...